Um félagið

Við erum breiður hópur fólks sem hefur það sameiginlegt að hafa sterkan vilja til að skapa aðstæður þar sem fólk af sama ætterni, en kannski mörgum kynslóðum, geta komið saman og hnýtt ættjarðarböndin fastar. Við reynum, auðvitað, að halda uppi dagskrá með viðburðum sem snerta eins breiðan hóp og hægt er. Allt starf innan félagsins er 100 % sjálfboðavinna. Sumir eru i skóla og aðrir i vinnu. Sumir hvorutveggja. Sumir ætla að stoppa tímabundið og aðrir hafa fest rætur.

Það er nauðsynlegt að taka fram að 7 einstaklingar (stjórnin) geta ekki staðið einir að öllu starfinu í kringum svona félag. Til að geta haldið öflugu starfi gangandi er nauðsynlegt að við vinnum saman, allir félagsmenn. Félagið vinnur fyrir félagsmenn, fyrst og fremst og án aðkomu félagsmanna að starfinu væri t.d. ekki mögulegt að hafa fjölbreytta viðburði innan félagsins.

Við höfum það að markmiði að gera vel við alla okkar gesti en dekstra enn betur við félagsmenn IFOdense. Þetta gerum við meðal annars með þvi að niðurgreiða viðburði fyrir félagsmennina og á þónokkra viðburði er ókeypis fyrir þá. Hér getur verið talað um, um eða yfir 50 kr verðmun á félaga og ekki félaga á nokkra viðburði yfir árið, svo að félagsgjaldið getur verið fljótt að koma aftur i vasann. Sjáðu frekari dæmi á Gerast félagi.

Íslendingafélagið í Odense er skráð hjá Odense kommune og það eru margir kostir sem fylgja því en það þýðir að IFOdense og félagsmenn þess þurfa að uppfylla lög og reglur Odense kommune til að halda rétti sínum sem skráð félag. Brot á reglum/skilyrðum Odense kommune getur haft í för með sér peningasekt og/eða að félagið missir aðstöðu sína og þar með möguleikana sem Odense kommune býður upp á sem myndi takmarka þau tilboð sem félagið getur boðið félagsmönnum sínum. Það er þess vegna mjög mikilvægt að við hjálpumst að við að uppfylla skilyrðin.

Einn kosturinn við að vera skráð félag hjá Odense kommune er að félagið getur fengið lánaða aðstöðu í íþróttasölum til að halda stærri viðburði, eins og t.d. var gert á 17. júní 2014, en þá var ballið um kvöldið haldið í íþróttasal í miðbænum á vegum sveitarfélagsins. Eins erum við orðin svo mörg þegar kemur að jólaballinu og páskabingóinu að við getum ekki verið í félagsaðstöðu okkar í Nordatlantisk Hus, og IFOdense þarf að öllum líkindum að fá lánaðan sal hjá sveitarfélaginu til að hýsa þessa viðburði framvegis.

En stærsti kosturinn við að IFOdense er skráð félag hjá Odense kommune, er að félagið tryggir sér hina glæsilegu félagsaðstöðu í Nordatlantisk Hus. En samkvæmt lögum Nordatlantisk Hus mega aðeins 4 félög nýta aðstöðuna sem húsið býður upp á. IFOdense er eitt af þeim félögum svo lengi sem við erum skráð félag hjá sveitarfélaginu. Það tók mörg ár og mikla vinnu af hendi fyrri stjórna IFOdense, til að tryggja félaginu aðstöðuna. Hafir þú ekki haft möguleikan á að skoða félagsaðstöðu IFOdense í Nordatlantisk Hus mælum við með því að þú gerir það við næsta viðburð félagsins.

Félagið reynir að lenda á núlli við hverja hátíð, eða smá í plús. Þessi plús, sem og félagsgjöldin, er svo notaður t.d. til að greiða fyrir kostnað sem hlýst af því að halda úti félagi sem þessu, þ.m.t, lén heimasíðunnar, tryggingargjald Nordatlantisk Hus, sem er okkar félagsaðstaða, niðurgreiða fyrir félagsmenn inn á kostnaðarmikla viðburði og greiða fyrir viðburði sem eru líklegir til að enda í mínus t.d.:

  • “Brekkusönginn” um verslunarmannahelgina 2013 sem haldinn var í Fruens Böge. Kostnaður var t.d. söngbækur, eldiviður og veitingar fyrir snillingana sem komu, sáu og sigruðu með gítarspili.
  • Stærri viðburði líkt og 17.júní þar sem hefð er fyrir því að félagsmenn fái íslenska pylsu í tilefni dagsins, jólatrésskemmtun þar sem jólasveinninn kemur með nammipoka með íslensku nammi, páskabingó, þorrablót og áfram mætti telja.

Við vonum innilega að við höfum náð að fanga áhuga þinn og að þú sjáir þér þann kost vænstan að verða gildur limur í okkar annars ágæta félagi og vera með í að gera félagið öflugra og skemmtilegra. Við munum gera okkar besta í að taka vel á móti þér og þínum 🙂

Skráðu þig í félagið

Vertu með frá upphafi! Félagsárið byrjaði í september.